Það er ekki nokkur vafi á því að ferðaþjónustan er einn af þeim þáttum sem eiga eftir að vega þungt í framtíð Íslands. Þessi grein er nú þegar orðin ein af undirstöðuatvinnugreinunum hér á landi og teygir anga sína víða.

Í raun má segja að Ísland sem land sé auðlind í sjálfu sér, enda gengur ferðaþjónustan að langmestu leyti út á það að selja Ísland og upplifun af Íslandi. Það hefur verið nær stanslaus fjölgun ferðamanna síðustu ár, en eins og fram kom í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í byrjun febrúar sl. hefur ferðamönnum fjölgað um helming á tíu ára fresti síðastliðin ár.

Það er nóg í boði fyrir þá ferðamenn sem hingað koma. Þannig ætti engum að leiðast á Íslandi, landi sem býður upp á Bláa lónið, vélsleða- og fjórhjólaferðir, ísklifur, jöklaferðir, útsýnisflug, hestaferðir, hvalaskoðun, sjóstangveiði, veiði í vötnum og ám, styttri og lengri ferðir með leiðsögn, fljótasiglingar og margt fleira. Þá má ekki gleyma öflugri og líflegri menningu auk þess sem hér er mikið framboð af gistirými, veitingastöðum og aðstöðu til fundahalda.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, í öðrum hluta af umfjöllun Viðskiptablaðsins um hina ýmsu framtíðarmöguleika sem við okkur blasa, er fjallað nánar um ferðaþjónustuna og vaxtarmöguleikana þar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.