Viðskiptablaðið hefur á undanförnum vikum fjallað ítarlega um þá framtíðarmöguleika sem í boði eru fyrir Ísland og Íslendinga. Í fyrsta hluta var fjallað um orku og olíu, þá um ferðaþjónustu, um breytingar á Norðurslóðum og loks um kvikmyndaframleiðslu.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins tökum við fyrir landbúnað og þá möguleika sem eru þar í boði til uppgangs og vaxtar. Þar er meðal annars vikið að hreinleika landsins sem er söluvara út af fyrir sig.

Hér fer kafli úr greininni:

Í öllum fyrri greinum um framtíð Íslands hefur alltaf verið minnst á gullkistuna sem við sitjum á; landið okkar. Það á líka við um landbúnaðinn í stórum skilningi. Þó svo að við teljum okkur eiga sterkustu mennina, fallegustu konurnar, hreinasta vatnið og besta lambakjötið þá er ekki víst að öðrum utan Íslands finnist það.

Það sem Ísland hefur þó umfram margar aðrar þjóðir er hreinleikinn og náttúrufegurðin sem landið getur státað af. Í því felast tækifæri fyrir stóraukinn útflutning á íslenskum landbúnaðarvörum, enda vex sífellt eftirspurnin eftir vörum sem framleiddar eru í fallegu og hreinu umhverfi. Það er nú þegar komin ákveðin reynsla á þetta með sölu á íslensku lambakjöti í verslunum Whole Foods í Bandaríkjunum. Víðsýnir menn innan landbúnaðarins horfa til þessa og stöðugt er unnið að því að stórauka útflutning á landbúnaðarvörum.

Hér er fyrst og fremst um markaðssetningu að ræða, en það kann að koma sá dagur að íslenskir bændur anni ekki eftirspurninni eftir gæðavottuðum vörum. Þá þarf vart að rifja upp útflutningsverðmæti íslenskra hesta sem nú þegar hleypur á milljörðum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.