Íslendingar eru í hópi 20 stærstu fiskveiðiþjóða heims. Fiskveiðilögsaga okkar er um 760 þúsund ferkílómetrar að stærð og inniheldur marga af stærstu fiskistofnum N-Atlantshafsins. Fiskveiðar eru sú grein sem Íslendingar þekkja einna best. Allt frá því að byggð hófst á þessu fallega landi okkar höfum við að miklu leyti lifað af því að veiða fiskinn í sjónum í kringum okkur.

Eina „stríðið“ sem við höfum háð, með veiðarfæraklippur að vopni, var vegna fiskveiða og eftir ævintýramennsku í fjármálageiranum eru það fiskveiðarnar sem virðast ætla að hjálpa okkur að komast á réttan kjöl. Fiskveiðar hafa alltaf verið stór hluti af okkur og verða það um ókomna tíð ef vel er haldið á spilunum.

Viðskiptablaðið hefur undanfarnar vikur fjallað um hina ýmsu möguleika sem standa Íslandi til boða til vaxtar og hagsældar í framtíðinni. Fjallað hefur verið um orkuna og olíuna, um ferðaþjónustuna, um norðurslóðir og tækifæri þar, um möguleikana í kvikmyndaframleiðslu, um helstu þætti landbúnaðarins og um samskipti okkar við Grænland og þá möguleika sem í boði eru kjósi Íslendingar að horfa í auknum mæli til nágranna okkar norðvestur af landinu. Í síðustu viku var fjallað um menntun, tækni, hugvit og þekkingu sem getur skapað okkur hagsæld á næstu árum.

Í áttunda og síðasta kafla þessarar úttektar blaðsins er fjallað um sjávarútveginn og tengdar greinar. Það er að sumu leyti epískt að skrifa um sjávarútveginn miðað við það ástand sem nú ríkir í greininni. Þegar þetta er skrifað liggur meginþorri íslenska flotans bundinn við bryggju til að mótmæla stefnu stjórnvalda í sjávarútvegsmálum. Fyrir Alþingi liggja tvö frumvörp um sjávarútvegsmál. Annars vegar hið svokallaða veiðigjaldafrumvarp sem mikið hefur verið fjallað um og hins vegar frumvarp um stjórn fiskveiða, sem í raun felur í sér að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi (sem í daglegu tali er kallað kvótakerfi) er lagt niður og við tekur miðstýrð og stóraukin afskipti hins opinbera af stjórn fiskeiða.

Árið 2010 störfuðu um 5.000 manns við fiskveiðar hér á landi og um 3.600 við fiskvinnslu. Það gerir um 5,2% af störfum á vinnumarkaði sem er töluverð fækkun frá því sem áður var. Fækkunina má helst rekja til tækniþróunar og hagræðingar í greininni. Ekkert bendir til þess að störfum í veiði eða vinnslu fjölgi á næstu árum. Aftur á móti eru fjölmargir möguleikar á fjölgun starfa og verðmætasköpun í hliðargreinum tengdum sjávarútvegi.

Í umfjölluninni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að töluverðu leyti stuðst við nýlega skýrslu Sjávarklasans. Umfjöllunin er ekki tæmandi frekar en fyrri úttektir en gefa lesendum í það minnsta hugmynd um hversu umfangsmikill sjávarútvegurinn er nú þegar og hvaða tækifæri liggja fyrir til vaxtar í greininni. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.