Alþjóðlega CHARGE Branding Energy ráðstefnan, sem fjallar um uppbyggingu vörumerkja í orkuiðnaði, verður haldin í þriðja sinn næstkomandi mánudag og þriðjudag í Hörpu, en í ár verður framtíð orkumála í kastljósinu. Samhliða ráðstefnunni fer fram verðlaunahátíð þar sem bestu vörumerkin í orkugeiranum hljóta CHARGE verðlaunin.

Meðal fyrirlesara verða Indverjinn Sushil Reddy, stofnandi Sun Pedal Ride, en samkvæmt tilkynningu um málið verða stjórnendur frá nokkrum af stærstu fyrirtækjum heims á sviðinu og úr heimi markaðsmála, þar á meðal stofnendur og stjórnendur virtra alþjóðlegra ráðgjafastofa.

„Orkuskiptin eru hafin en almenningur þarf að verða meðvitaðri um að þetta sé mögulegt og mikilvægt skref í tækni og framförum.“ er haft eftir Dr. Friðrik Larsen, lektor í markaðsfræðum og stofnanda CHARGE.

Tilkynningin í heild sinni:

„Alþjóðlega CHARGE Branding Energy ráðstefnan fjallar um uppbyggingu vörumerkja í orkuiðnaði og í ár verður framtíð orkumála í kastljósinu. Hún verður skoðuð frá ýmsum hliðum, til dæmis verða endurnýjanlegir orkugjafar til umfjöllunar, rafmagnaðar samgöngur og fleira. Ráðstefnan hefur frá upphafi verið í fararbroddi í að vekja athygli á möguleikum orkuskipta í samgöngum á Íslandi. Búist er við um 300 gestum frá öllum heimshornum frá nokkrum af stærstu fyrirtækjum heims sem starfa í orkuiðnaði eða tengjast honum.

Þetta er í þriðja skipti sem ráðstefnan er haldin og fer hún fram í Hörpu 24. og 25. september næstkomandi. Samhliða ráðstefnunni fer fram verðlaunahátíð þar sem bestu vörumerkin í orkugeiranum hljóta CHARGE verðlaunin.

Meðal fyrirlesara eru stjórnendur frá nokkrum af stærstu fyrirtækjum í heimi á þessu sviði og úr heimi markaðsmála er von á stofnendum og stjórnendum virtra alþjóðlegra ráðgjafastofa.

„Orkuskiptin eru hafin en almenningur þarf að verða meðvitaðri um að þetta sé mögulegt og mikilvægt skref í tækni og framförum. Þetta er einnig stórt ímyndarmál fyrir okkur Íslendinga. Við eigum ekki að láta fyrsta sætið af hendi sem sjálfbærasta þjóð í heimi en til þess að vera í forystu í þessum málum þá verðum við að láta verkin tala,“ segir Dr. Friðrik Larsen, lektor í markaðsfræðum og stofnandi CHARGE.

Það er ekki á hverjum degi sem svo mikil þekking í eins stórum málaflokkum kemur saman á Íslandi. Erlendir gestir eiga það flestir sameiginlegt að koma úr orkugeiranum, vilja tengjast orkugeiranum eða starfa við samskipta- og markaðsmál. CHARGE er því kjörið tækifæri fyrir orkusamfélagið á Íslandi að kynna sínar lausnir, læra nýjar aðferðir, víkka sjóndeildarhringinn og kynnast nýju fólki sem sækir ráðstefnuna erlendis frá.

„Meðal gesta ráðstefnunnar er Indverjinn Sushil Reddy, stofnandi Sun Pedal Ride. Í fyrirlestri sínum á ráðstefnunni kemur hann inn á ferðalög sín, þar á meðal nýjasta ævintýrið; hringferð um Ísland á IKEA rafhjóli. Eins og áhorfendur á ráðstefnunni munu sjá verður framtíð orkumála mótuð af bestu og framsýnustu vörumerkjunum, óháð geira. Það er því ánægjulegt að hafa fengið framsækin vörumerki til liðs við CHARGE til að vekja athygli á möguleikum rafknúinna og umhverfisvænna samgöngumáta,“ segir Dr. Friðrik ennfremur.“