Lánardrottnar Reykjaneshafnar munu tilkynna um afstöðu sína til fjárhagslegrar endurskipulagningar hennar á fundi í hádeginu í dag. Upphaflega höfðu þeir frest til þriðjudags til að taka afstöðu til þeirra leiða sem kynntar höfðu verið en ákveðið var að lengja þann frest um tvo daga. Reykjaneshöfn skuldaði 5,6 milljarða króna 1. mars síðastliðinn. Þar af nema skuldir við lánastofnanir og lífeyrissjóði 3,7 milljarða króna. Framlegð hafnarinnar á árinu 2010 voru 65 milljónir króna. Þar af voru einungis 19 milljónir vegna reglulegrar starfsemi en afgangurinn var í formi endurgreiddra fasteignaskatta.

Líklegast lengt í lánum

Í kynningu sem haldin var fyrir kröfuhafa í mars voru þrjár leiðir sagðar færar: að bíða og sjá til, að lækka vexti verulega og lengja í lánum eða setja atvinnuþróunarsvæðið við Reykjaneshöfn inn í sérstakt landþróunarfélag. Ef landþróunarfélagsleiðin hefði verið valin þá hefðu lánardrottnarnir getað eignast landareignir félagsins ef illa færi.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma þó að fallið hafi verið frá þeirri leið vegna þess að hún hafi verið of flókin. Líklegast er talið að lánardrottnar fallist á að lengja í lánum að hluta og málið verði síðan endurskoðað eftir tvö ár.

Upplýst um seljanlegar eignir Reykjanesbæjar

Lánardrottnar Reykjaneshafnar fóru fram á það að Reykjanesbær, sem er í ábyrgðum fyrir kröfum á hendur höfninni, myndi upplýsa um fjárhagsstöðu sína og hvaða eignir sveitarfélagsins væru seljanlegar. Í tilkynningu til Kauphallarinnar vegna þessa taldi Reykjanesbær upp fjórar eignir: innstæðu í Landsbankanum upp á 2,5 milljarða króna, skuldabréf á Magma Energy Sweden upp á 8,2 milljarða króna sem er á gjalddaga 2016, eignarhlut í HS Veitum upp á 6,5 milljarða krona og land og auðlindir sem eru 1,8 milljarða króna virði. Samanlagt virði þessarra eigna er því talið vera um 19 milljarðar króna.