Kjötvinnslufyrirtækið Norðlenska keypti nýverið allar fasteignir Vísis hf. á Húsavík. Fyrirtækið fékk húsnæðið afhent í byrjun vikunnar og hefur strax tekið hluta þess í notkun.

Húsnæðið sem um ræðir er um fimm þúsund fermetrar og hefur að geyma frystigeymslur, vinnslusal, skrifstofur, geymslur og gistiheimili. Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segir í samtali við Viðskiptablaðið að fyrirtækið hafi verið í vandræðum með frystipláss og því hafi frystirinn strax verið tekinn í notkun. Þá hefur 450 fm. gistiheimili, sem er hluti af húsnæðinu, verið komið í leigu til heimamanna.

Framtíðin á Húsavík

Spurður um frekari áform á Húsavík svarar Sigmundur því til að hann sjái mikla framtíð fyrir Norðlenska á staðnum, ekki síst í ljósi þessara fasteignakaupa. Fyrirtækið keypti einnig tvö þúsund fermetra hús á staðnum fyrir tveimur árum. Norðlenska leigir húsnæði á Akureyri og rennur leigusamningurinn út eftir þrjú ár. „Framtíðaruppbygging okkar verður á Húsavík, það er alveg ljóst. Allar viðbætur og vöxtur verður væntanlega þar,“ segir Sigmundur. Hann vill ekki gefa upp kaupverð húsnæðisins.

Mikið var rætt um það þegar fiskvinnslufyrirtækið Vísir ákvað á vormánuðum að flytja alla sína starfsemi til Grindavíkur. Að sögn Sigmundar hefur Norðlenska rætt við alla fyrrum starfsmenn Vísis á Húsavík, sem ákváðu að flytja ekki með starfseminni suður, varðandi starf hjá Norðlenska. Hann segir að starfsfólkinu hafi verið boðið tímabundið starf í sláturtíðinni í haust með möguleika á áframhaldandi starfi. Rúmlega helmingur starfsmanna hefur nú þegar þegið boðið.