Framtíðin námslánasjóður hf. og Endurmenntun Háskóla Íslands hafa gert með sér samstarfssamning. Samkvæmt samningnum mun Framtíðin bjóða upp á námslán til þeirra sem hyggjast stunda nám við ákveðnar námsbrautir Endurmenntunar, að uppfylltum lánaskilyrðum sjóðsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Námsbrautirnar eru eftirfarandi:

  • Jákvæð sálfræði - diplómanám á meistarastigi
  • Hugræn atferlismeðferð - undirstöðuatriði
  • Sérnám í hugrænni atferlismeðferð fyrir geðlækna og sálfræðinga
  • Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun
  • Framkvæmdaferli mannvirkjagerðar
  • Leiðsögunám á háskólastigi
  • Löggilding fasteigna-, fyrirtækja-, og skipasölu
  • Fjölskyldumeðferð – diplómanám á meistarastigi

Samningurinn var undirritaður af Hlíf Sturludóttur, stjórnarformanni Framtíðarinnar og Kristínu Jónsdóttur Njarðvík, endurmenntunarstjóra Háskóla Íslands, í dag á skrifstofum Endurmenntunar Háskóla Íslands

Framtíðin er námslánasjóður sem hóf göngu sína í upphafi árs. Markmið sjóðsins er að veita námsmönnum framfærslu- og/eða skólagjaldalán hvort sem þeir eru á leið í nám á Íslandi eða erlendis.