Fjártæknifyrirtækið Framtíðin hefur hafið veitingu brúarlána en slík lán gera fólki kleift að gera tilboð í nýja eign án þess að gera fyrirvara um sölu eldri eignar. Brúarlán er tímabundið húsnæðislán með veði í eldra húsnæði og gagnast sem útborgun við kaup á nýrri eign.

Lánin eru veitt til þriggja mánaða með möguleika á framlengingu til tólf mánaða en það greiðist að fullu til baka um leið og eldri eignin er seld með fjármagninu sem var fast í gömlu eigninni að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Viðskiptablaðið greindi frá því í mars að til stæði að bjóða upp á slík lán hjá Framtíðinni og nú eru þær fyrirætlanir komnar til framkvæmda. Auk brúarlána býður Framtíðin upp á námslán, húsnæðislán og almenn lán.

„Stundum þarf að bregðast hratt við þegar draumaeignin kemur skyndilega á sölu. Með brúarláni fær kaupandinn forskot á aðra sem eru að bjóða í sömu eign, því sá sem er með brúarlán getur boðið háa útborgun strax á meðan sá sem ætlar að selja sína eign fyrst býður litla útborgun, en meira síðar þegar eignin er seld. Þetta getur ráðið úrslitum um það hvort tilboð er samþykkt eða ekki. Þá þarf kaupandinn heldur ekki að að stökkva á fyrsta tilboðið sem hann fær í gömlu eignina til að klára kaupin á nýju eigninni,“ er haft eftir Valgerði Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra Framtíðarinnar, í tilkynningu.