*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Erlent 28. júní 2017 15:53

Framtíðin í endurnýtanlegri orku

Um helmingur raforkuframleiðslu í heiminum mun koma frá endurnýtanlegum orkugjöfum árið 2040 samkvæmt nýrri skýrslu Bloomberg.

Ritstjórn

Samkvæmt árlegri skýrslu Bloomberg um horfur orkumarkaði mun um helmingur raforkuframleiðslu heimsins koma frá sólar- og vindorku árið 2040. Hlutfallið er í dag um 12%. Fjallað er um skýrsluna í frétt á vefsíðu Samorku.

Til þess að þessi þróun geti gengið eftir þarf að þrefalda fjárfestingu í þróun á vinnslu rafmagns úr endurnýtanlegum orkugjöfum miðað við raforku sem unnin er úr jarðefnaeldsneyti. Með endurnýtanlegum orkugjöfum er átt við jarðhita, vatnsafl, sól og vind. Gerir Bloomberg ráð fyrir því að um 72% af allri fjárfestingu í nýjum orkukerfum muni fara í sólar- og vindorkulausnir. 

Skýrsluhöfundar gera jafnframt ráð fyrir því að fyrir árið 2040 fáist rúmlega tvöfalt meiri orka en í dag fyrir hvern dollara sem fjárfest er í sólar- og vindorku. Þá er gert ráð fyrir því að þessir orkugjafar muni ryðja kolum úr vegi fyrir árið 2030 og að einungis þriðjungur af þeim kolaorkuverum, sem stefnt er að að byggja, verði að veruleika.