Samtök iðnaðarins, Málmur – Samtök fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði og VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna efna til ráðstefnu um stöðu málm- og véltækniiðnaðar á Íslandi og tækifæri hans í framtíðinni 31. janúar kl. 10.00 – 16.00 á Grand Hótel Reykjavík.

Ingólfur Sverrisson, forstöðumaður Málm- og véltæknisviðs SI segir stöðu málmiðnaðargreina allt aðra en t.d. byggingariðnaðarins þó efnahagsstaðan setji vissulega sinn svip á þessar greinar. Framtíðin sé björt en mjög fjölbreytt starfsemi er á þessu sviði, bæði í margskonar framleiðslu, viðhaldi og vaxandi þjónustu við stóriðju.

„Þannig eru viðgerðir og viðhald fyrir stóriðjufyrirtækin orðinn mjög stór þáttur í langtímaverkefnum. Þar er verið að gera margra ára samninga með gríðarlega miklu umfangi. Þetta er ólíkt því sem verið hefur að gerast í mörgum öðrum iðngreinum og þess vegna tölum við af bjartsýni,” segir Ingólfur.

Hann segir blóðugt hvað grunnmenntun í þessum greinum hafi verið lítið sinnt undanfarin ár og áratugi. „Það hefur haft þau áhrif að við höfum verið að missa mjög álitleg verkefni til útlanda eingöngu vegna þess að það er ekki mannskapur hér til að vinna þau. Samt eru þetta ágætlega launaðar greinar.”

Svipuð þróun hefur átt sér stað á hinum Norðurlöndunum. Bendir Ingólfur á að í Danmörku hafi vantað um 100.000 manns inn í þessa grein og þeir hafi því þurft að leita í stórum stíl til útlanda í leit að menntuðu starfsfólki.   „Við erum bara ekkert að kenna okkar fólki það sem við þurfum á að halda.” Þess í stað segir Ingólfur að aðal áhersla menntakerfisins hafi verið á hugvísindi og bóklegar greinar fremur en þær verklegu. Í gær hafi hins vegar verið að byrja átak í jafningjafræðslu sem miðar að því að vekja áhuga grunnskólanema á iðngreinum.   Á ráðstefnunni á morgun verður farið yfir starfsumhverfi greinarinnar, verkefni, menntun, sóknarhug og framtíðarsýn. Fjöldi erinda verður á ráðstefnunni.