*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 9. febrúar 2015 17:08

Framúrskarandi fyrirtæki: Reykjanes kemur sterkt inn

Framúrskarandi fyrirtækjum fjölgaði á öllum landshlutum frá árinu 2013 að Vestfjörðum undanskildum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Creditinfo gaf í síðustu viku út lista yfir framúrskarandi fyrirtæki, líkt og það hefur gert undanfarin ár, en þeim hefur fjölgað um 115 frá því í fyrra og eru nú 577 talsins. Framúrskarandi fyrirtækjum fjölgar mismikið milli ára þegar landshlutar eru bornir saman, en aukningin nemur t.d. 56% á Reykjanesi.

Þegar framúrskarandi fyrirtækjum er skipt eftir landshlutum kemur í ljós að þeim fjölgar á öllum landshlutum nema á Vestfjörðum. Þar eru hins vegar aðeins fjögur fyrirtæki á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki og voru aðeins fimm árið áður.

Mesta breytingin er á Austurlandi þar sem fyrirtækjum fjölgar um 80% yfir í 27 fyrirtæki fyrir árið 2014. Fyrirtækjum á listanum fjölgar um 19% á höfuðborgarsvæðinu en athygli vekur að fyrirtækjum á Reykjanessvæðinu fjölgar um 56% milli ára.Þar eru 25 framúrskarandi fyrirtæki árið 2014.