Alls eru 358 fyrirtæki á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki og fjölgaði þeim um 120 á síðasta ári, eða um 50%. Creditinfo birti í gær árlegan lista sinn yfir framúrskarandi fyrirtæki. Þrjú fyrirtæki tóku við þetta tilefni við sérstökum viðurkenningum úr hendi Katrínar Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsráðherra.

Þetta voru lyfjasölufyrirtækið Medis í Hafnarfirði fyrir að verma efsta sætið á listanum í ár. Kælismiðjan Frost á Akureyri hlaut viðurkenningu fyrir mestu hækkun á listanum undanfarin þrjú ár, en fyrirtækið situr nú í 58. sæti listans. Byggingaverktakinn Alefli úr Mosfellsbæ hlaut síðan verðlaun fyrir að vera efst fyrirtækja í bygginga- og mannvirkjagerð. En það er sú atvinnugrein sem talin er áhættusömust um þessar mundir. Alefli skipar 245. sæti listans.

Listinn sýnir hvaða íslensk fyrirtæki fá bestu einkunn í styrk- og stöðugleikamati Creditinfo m.v. ýmsar lykiltölur og breytur sem unnar eru upp úr ársreikningum síðustu þriggja ára. Í tilkynningu segir að listinn sýni þannig hvaða fyrirtæki gangi vel til langs tíma og að hann auðveldi utanaðkomandi aðilum að meta hvaða fyrirtæki eru í tryggustum rekstri hér á landi. Erlend greiðslutryggingafyrirtæki hafa sótt í að nýta sér listann, en hann var fyrst tekinn saman fyrir þremur árum.

Einungis 25% fyrirtækjanna á listanum í ár teljast á meðal 300 stærstu fyrirtækja landsins. Framleiðslufyrirtæki eru áberandi á listanum, einnig eru þar margs konar þjónustufyrirtæki eins og lögmannsstofur. Sjávarútvegsfyrirtækjum fjölgar á listanum, en athygli vekur fjölgun framúrskarandi fyrirtækja sem veita sjávarútveginum þjónustu.

Langflest þessara framúrskarandi fyrirtækja eru á höfuðborgarsvæðinu en fæst á Vestfjörðum. Eiginfjárhlutfall fyrirtækjanna 358 á listanum í ár er að meðaltali 61% og samanlagður hagnaður þeirra á síðasta ári var 90 milljarðar. Miðgildi hagnaðar var hins vegar 39 milljónir.