TAS er sprotafyrirtæki sem er staðsett á Flatarhrauni í Hafnarfirði. Félagið sér um rekstur tölvukerfa fyrir fyrirtæki og stofnanir og tekst á við jafn fjölbreytt verkefni og við­ skiptavinirnir eru margir. TAS hefur smíðað framúrstefnulegt fasteignaumsjónakerfi. Félagið er með í þróun sams konar kerfi sem sér um rekstur, umsjón og viðhald flugvélaflota.

„Félagið býður upp á alla almenna tölvuþjónustu og tengdar lausnir fyrir öll fyrirtæki. Þótt við séum í þessari rekstrarþjónustu fyrir fyrirtæki og stofnanir þá er TAS sérhæft í rekstri umsjón og umsýslu á Microsoft Dynamics AX viðskiptalausnum og hefur innleitt mörg slík kerfi bæði hérlendis og erlendis,“ segir Sigurður H. Álfhildarson, framkvæmdastjóri TAS.

Félagið hefur smíðað fasteignaumsjónakerfi ofan á Dynamics AX sem Sigurður segir hafa nú þegar vakið mikla athygli, m.a. hjá Microsoft. „Öll áætlunargerð kerfisins er byggð á gervigreind og veitir þér ráðgjöf og innsýn í hvað framundan er. Kerfið snýst um að skrifa út húsaleigu, gera viðhaldsáætlanir og halda úti markaðsstarfi fyrir lausar fasteignir til leigu. Félagið er með þeim fyrstu sem nýtir sér gervigreind og talgervla eins og Google Talk, Siri og Cortana í fjárhagsupplýsingakerfum eins og Dynamics AX. Sem dæmi um þetta getur umsjónarmaður fasteigna komið með síma eða spjaldtölvu í húsnæði sem þarfnast viðhalds. Hann getur þá talað við tækið um hvað hann ætli að gera, hvaða varahluti hann þarf að nota o.s.frv. Hann getur t.a.m. sagst ætla að skipta um ljósaperur í stigagangi. Við svo búið tekur spjaldtölvan eða síminn GPS staðsetninguna, greinir hvaða byggingu er um að ræða og miðað við staðsetningu þá koma bara ákveðnar ljósaperur til greina. Því þarf lítið að pikka inn og þetta langa ferli, að búa til verkbeiðnir sem mörgum vex í augum, er nánast úr sögunni. Allt sem þarf er að tala við tækið og staðfesta tillögur sem gefnar eru upp,“ segir Sigurður.

Nánar er fjallað um málið í Sprotum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .