Embætti talsmanns neytenda er þriggja ára í dag en embættið var sett á laggirnar þann 1. júlí árið 2005.

Haldið verður upp á afmæli embættis talsmanns neytenda með því að birta fyrirsagnir frétta og eins aðra pistla um neytendamál á heimasíðu embættisins frá og með deginum í dag einnig á ensku „þannig að fleiri neytendum á Íslandi sé þjónað en þeim sem lesa íslensku,“ eins og segir á vef talsmann neytenda.

„Í samræmi við alþjóðavæðingu viðskiptalífsins og aukinn fjölda neytenda á Íslandi sem ekki hefur íslensku að móðurmáli þykir eðlilegt að fleiri en þeir, sem fljótlæsir eru á íslensku, geti kynnt sér meginatriði í starfsemi embættis talsmanns neytenda,“ segir á vef embættis talsmanns neytenda.

Þá kemur fram að í tilefni af þessum áfanga hefur talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, ákveðið að gera tilraun með birtingu hluta heimasíðunnar á ensku frá og með deginum í dag  - 3ja ára afmælisdegi embættisins.

Einnig kemur fram á vef talsmanns neytenda að þar sem hið unga embætti er aðeins eins manns, en Gísli Tryggvason er talsmaður neytenda, þykir ekki fært að sinni að ganga lengra og þýða allar síður á vefsetrinu eða meginmál frétta og greina.

„Með því að birta meginatriði frétta og pistla á ensku geta neytendur og aðrir sem vilja fylgjast með neytendamálum á Íslandi spurt nánar út í atriði sem fjallað er nánar um á íslensku,“ segir á vef talsmanns neytenda.