Framvirk staða viðskiptavina bankanna með krónunni jókst nokkuð í síðasta mánuði samfara 5% styrkingu krónunnar, segir greiningardeild Glitnis.

?Velta á gjaldeyrismarkaði var með minna móti í maí og hefur því aukin stöðutaka ef til vill haft meiri áhrif en ella. Seðlabankinn birti í gær tölur um gjaldeyrisjöfnuð bankastofnana og kemur þar fram að framvirk gjaldeyrisstaða bankanna var rúmir 669 milljarða króna í lok maí.

Það jafngildir rúmlega 5% aukningu innan mánaðarins á föstu gengi. Krónan naut meðbyrs í mánuðinum enda skammtímavextir óvíða hærri og vaxtamunarviðskipti enn afar vinsæl meðal alþjóðlegra fjárfesta,? segir greiningardeildin.
Þessar tölur ná einnig yfir nettóstöðu bankanna sjálfra, enda er tilgangur þeirra meðal annars að fylgjast með frávikum frá jöfnuði hjá bankastofnunum.

?Samkvæmt reglum Seðlabankans mega þessi frávik ekki nema meira en 30% af eigin fé bankanna, en þeir geta þó fengið undanþágu frá þeim mörkum, meðal annars til að verja eiginfjárstöðu sína.

Nettóstaða bankanna í erlendum gjaldeyri óx hratt á síðasta ári en litlar breytingar hafa hins vegar orðið á henni það sem af er ári. Staðan nam 229 milljörðum króna í lok síðasta mánaðar, en það jafngildir um það bil fjórðungi af samanlögðu eigin fé viðskiptabankanna þriggja,? segir greiningardeildin.