Francois Hollande, sem fór með sigur af hólmi í keppninni við Nicolas Sarkozy um forsetastól Frakklands um síðustu helgi, segir forvera sinn hafa staðið sig illa í efnahagsmálum, skilað af sér verra búi en vonast var til og geti hann gert mun betur. Hann stefnir engu að síður að því að draga úr halla á ríkisrekstri um 3% af landsframleiðslu á næsta ári.

Fjármálasérfræðingar um heim allan hafa verið taugastrekktir yfir kosningasigri sósíalistans Hollande, sem í baráttu sinni talaði gegn aðhaldsaðgerðum, Evrópusambandinu og boðaði skattahækkanir á þá tekjuhæstu.

Óttast hefur verið að hann geti aukið ýtt franska ríkinu ofan í skuldafen. Ekki sé á bætandi skuldavanda evrusvæðisins enda Frakkland annað umsvifamesta ríkið í myntbandalaginu. Helstu hlutabréfavísitölur lækkuðu á heimsvísu strax á mánudag þegar ljóst var að Hollande hafði velt sitjandi forseta úr valdastóli. Hann tekur við forsetaembættinu á þriðjudag í næstu viku.

Franska fréttastofan AFP hafði eftir Hollande, sem hélt blaðamannafund í dag, að svo virðist sem Sarkozy hafi misreiknað sig og sé staða ríkisfjármála verri en vænst var. AFP segir Hollande engu að síður fullvissan um að hann geti ráðist í þær aðgerðir sem hann boðaði í kosningabaráttu sinni.

Hollandi sagði á fundinum í dag jafnframt ekki undrast að Sarkozy hafi skilað af sér slæmu búi og hefur krafist þess að óháður aðili verður ráðinn til að fara yfir ríkisreikninginn.