Franek Rozwadowski, sendifulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á Íslandi, segir í samtali við Fréttablaðið að niðurstöða EFTA-dómstólsins muni hafa jákvæð áhrif á efnahagslega stöðu landsins. Neikvæð niðurstaða hefði aukið skuldir þjóðarbúsins og sú ógn sé nú frá.

„Þetta getur auðveldað ríkisstjórninni aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum og er jákvætt fyrir Ísland þegar kemur að alþjóðlegum viðskiptum.“

Niðurstaðan virðist hafa haft jákvæð áhrif á lánshæfi ríkissjóðs og lækkaði ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf í gær. Rozwadowski segir að niðurstaðan muni hafa jákvæð áhrif en það sé þó ekki hans að spá um hve mikil. „Niðurstaðan skemmir allavega ekki fyrir. Það er ljóst að áhrifin eru jákvæð en erfitt er að segja um hve mikil þau verða. Tíminn leiðir það í ljós.“