„Þegar ég horfi til baka á fyrstu skýrslurnar sem unnar voru er í raun merkilegt hversu rétt grunngreiningin reyndist vera. Að sjálfsögðu voru ítarlegri spár ekki eins réttar, en við því er að búast,“ segir Franek Rozwadowski, sem var sendifulltrúi AGS á Íslandi frá 2009 þar til skrifstofu sjóðsins var lokað.

Hann segir að þegar horft sé um öxl hafi AGS verið of svartsýnn í ákveðnum spám, en of bjartsýnn í öðrum. „Strax í kjölfar hrunsins dróst framleiðsla minna saman, atvinnuleysi jókst minna og fjárlagahallinn jókst minna en við óttuðumst. Hins vegar var hagvöxtur á árunum eftir hrun minni en við vonuðum. Hins vegar er 2% hagvöxtur á ári, eins og við spáum nú, nokkuð góður í alþjóðlegum samanburði og ekki síst þegar haft er í huga að ríki sem ganga í gegnum fjármálakreppu eru lengur að ná sér á strik.“

Þá segir hann að mikilvægt sé að hafa í huga að Ísland er ekki hólpið enn. Fara verður afar varlega þegar kemur að afnámi hafta og gæta þess að það valdi ekki efnahagslegum óstöðugleika. Þá er mikilvægt að halda áfram aðhaldi í fjárlögum ríkisins og stefna að fjárlagaafgangi innan tíðar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .