Mikið hefur verið rætt um aðkomu AGS að stýrivaxtaákvörðunum Seðlabankans. Það er því við hæfi að spyrja Franek Rozwadowski, sendifulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS)  hversu ströng skilyrði AGS eru við stýrivaxtaákvörðun, m.ö.o. hver er það sem ræður ferðinni?

„Það liggur ljóst fyrir að það er peningastefnunefnd Seðlabankans sem tekur ákvörðun um stýrivexti. Um það leikur enginn vafi,“ segir Franek í viðtali við Viðskiptablaðið.

Sp. Blaðamanns: En nefndin hlýtur að taka mið af viðhorfum AGS þannig að sjóðurinn hlýtur í raun að hafa eitthvað með það að gera hvernig stýrivaxtaákvarðanir eru teknar?

„Til að svara þessu þurfum við að skoða málið frá grunni. Hér er í gangi samstarfsáætlun íslenskra stjórnvalda og AGS um enduruppbyggingu íslenska hagkerfisins,“ segir Franek.

„Sú áætlun er samin af íslenskum stjórnvöldum og það eru því hérlend stjórnvöld sem ráða ferðinni. Stefnumótunin er í höndum íslenskra stjórnvalda og það er þeirra að taka á vandamálum sem kunna að koma upp.“

Franek segir að í viljayfirlýsingu stjórnvalda sé því lýst meðal annars hvernig peningamálastefnan er ákveðin, þ.m.t að stýrivextir verði lækkaðir eftir aðstæðum, meðal annars eftir þróun á gjaldeyrismarkaði. „Þetta er áætlun sem samin er af íslenskum stjórnvöldum, kynnt AGS og studd af sjóðnum,“ segir Franek.

„Vaxtastefnan er því hluti af efnahagsáætluninni.“

Franek Rozwadowski hefur verið í kastljósinu síðustu daga og vikur. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Franek að stíga þurfi varlega til jarðar þegar kemur að lækkun stýrivaxta, gjaldeyrishöftin verði afnumin í þrepum og endurreisn hagkerfisins sé í höndum stjórnvalda en ekki AGS.

_____________________________

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .