*

laugardagur, 25. janúar 2020
Erlent 20. júní 2019 08:39

Franke kaupir 50 nýjar Airbus vélar

Indigo Partners hefur gengið frá viljayfirlýsingu um að festa kaup á 50 nýjum Airbus A321XLR flugvélum.

Ritstjórn
Bill Franke.
Aðsend mynd

Bill Franke, stofnandi og stærsti eigandi Indigo Partners, hefur gengið frá viljayfirlýsingu um að festa kaup á 50 Airbus flugvélum. Gengið var frá samningum þess efnis á flugsýningu sem fór fram á dögunum í París. Reuters greinir frá þessu.

32 af umræddum vélum verða af gerðinni Airbus A321XLR, auk þess sem áður undirritaður samningur um kaup á 18 Airbus A320 vélum verði breytt þannig að vélarnar 18 verði af sömu gerð, eða sem sagt Airbus A321XLR.

Vélarnar eru hugsaðar sem viðbót inn í flota ungverska flugfélagsins Wizz Air, bandaríska flugfélagsins Frontier Airlines og síleska flugfélagsins JetSMART, en Indigo Partners er hluthafi í öllum þessum félögum. Sérfræðingar innan fluggeirans reikna með að samningurinn um kaupin á vélunum 32 sé um 4,5 milljarða dollara virði.

Áðurnefnd A321XLR var kynnt til leiks síðastliðinn mánudag og er vélin sögð byggja á A321 vél Airbus en með umtalsvert lengri flugdrægni. Vélin á að geta tekið á loft í Miðríkjum Bandaríkjanna og flogið til meginlands Evrópu án þess að millilenda á leiðinni.