Franska fjármálaeftirlitið, Autorite des Marches Financiers, hefur hafið rannsókn á franska bankanum Société Générale en talsmaður þess neitar að tjá sig um hvort að rannsóknin tengist hinu mikla tapi sem bankinn hefur orðið fyrir vegna sviksamlegra viðskipta Jerome Kerviel, eða hvort að rannsóknin hafi hafist áður en ljóstrað var upp um svikin.

Dagblaðið Le Monde hefur birt útdrætti úr yfirheyrslu lögreglu yfir Kerviel, en þar staðhæfir Kerviel m.a. að yfirmenn hans hafi haft veður af áhættusömum og óheimilum fjárfestingum hans en látið þær óáreittar á meðan þær skiluðu hagnaði. Benti hann á máli sínu til stuðnings að sú staðreynd að hann tók sér aðeins fjögurra daga frí frá vinnu allt árið í fyrra hefði átt að vekja yfirmenn hans til vitundar um að hann þyrði ekki að láta annan miðlara taka við verkefnum sínum, sem bent gæti til að ekki væri allt með felldu. „Ég notaði ekkert sérstaklega háþróaðar aðferðir. Ef athugun hefði verið framkvæmd með réttum hætti hefði verið auðvelt að koma auga á þessar færslur,” er haft eftir honum í Le Monde. „En á meðan ég græddi fé ullu vísbendingarnar ekki áhyggjum.” Hefur embætti saksóknara staðfest að rétt sé haft eftir Kerviel.

Kerviel sagði jafnframt að hann hefði byrjað að fela færslur sínar árið 2005 í kjölfar þess að hann veðjaði á lækkun hlutabréfamarkaðarins í London,  sem og varð eftir sprengiáraásarnir þar í júlímánuði. Græddi hann stórfé á þeirri spá fyrir bankans hönd. „Slíkt vekur hjá manni löngun til að halda áfram og þá er snjóboltinn farinn að rúlla,” sagði hann.

Lögmaður Societe Generale vísaði þessum staðhæfingum á bug og sagði bankann fórnarlamb lygara og svikahrapps.

Viðskiptahættir eldri bróður einnig áhyggjuefni

Fjölmiðlar ytra hafa nú greint frá því að eldri bróðir Jerome, Oliver Kerviel, sem var miðlari hjá BNP Paribas, stærsta banka Frakklands, hafi verið sagt þar upp störfum í fyrra vegna þess að áhyggjur höfðu vaknað um viðskiptahætti hans.

Bankinn neitar því þó að þeir hafi valdið honum einhverju fjárhagstjóni. BNP hefur jafnframt verið sterklega orðaður við hugsanlega yfirtöku á Société Générale, en bankinn gerði misheppnaða tilraun til slíkrar yfirtöku vorið 1999. Eftir að orðrómurinn fór á kreik hefur gengi hlutabréfa í Société Générale hækkað um 10% Francois Fillon, forsætisráðherra Frakklands, hefur fullvissað franska þingið um að Société Générale verði áfram í eigu franskra aðila.