*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 8. febrúar 2013 17:15

Franska ríkið reiðubúið að aðstoða Peugeot

Franski bílaframleiðandinn PSA Peugeot Citroën sér fram á skelfilega afkomu fyrir 2012 vegna afskrifta.

Ritstjórn

Franskur ráðherra segir að franska ríkið sé tilbúið að kaupa hlut í franska bílaframleiðandanum PSA Peugeot Citroën ef fyrirtækið reynist þurfa á auknu eigin fé að halda. Hlutabréf í PSA féllu um 2,5% í dag eftir að greint var frá því að fyrirtækið þyrfti að afskrifa eignir að verðmæti 3,9 milljarða evra. Jafngildir það um 665 milljörðum króna. Við þetta munu hugsanlega bætast afskriftir upp á um 240 milljónir evra þannig að tap fyrirtækisins fyrir árið 2012 gæti hlaupið á bilinu 5,5 til 6,0 milljarðar evra.

Í frétt Financial Times er haft eftir talsmanni fjármálaráðuneytisins að þrátt fyrir afskriftirnar þurfi PSA ekki á fjárhagsaðstoð að halda, en Jérôme Cahuzac, fjárlagaráðherra, segir að fjárfestingarsjóður franska ríkisins sé reiðubúinn að stíga fram ef þess gerist þörf.

Sagði hann að það væri alveg ljóst að fyrirtækið mætti alls ekki hverfa og þess vegna væri ríkið til í að gera hvað sem er fyrir fyrirtækið. Franska ríkið hefur þegar ábyrgst sjö milljarða evra lán til fjármálaarms fyrirtækisins, en Evrópusambandið á eftir að leggja blessun sína yfir þá aðstoð.