Edouard Phillippe, forsætisráðherra Frakklands, og ríkisstjórn hans hefur látið af störfum en uppsögnin er talin vera hluti af uppstokkun Emmanuel Macron Frakklandsforseta til þess að styrkja framboð sitt til forsetakosninganna árið 2022.

Fyrstu þrjú árin í forsetatíð Macron hafa einkennst af umdeildum efnahagsumbætum, sem hefur meðal annar leitt til gulvestunga-hreyfingarinnar (gilets jaunes). Heimsfaraldurinn hefur einnig orsakað djúpa efnahagslægð í landinu og um 30 þúsund manns hafa látið lífið í Frakklandi vegna Covid-veirunnar.

„Við þurfum að fara niður nýjan veg,“ sagði Macron í viðtali við franskt tímarit sem kom út í morgun. Hann sagðist ætla að halda áfram með endurbætur á hinu dýra og flókna lífeyriskerfi í landinu þrátt fyrir verkföll, til að mynda hjá starfsfólki í lestarkerfinu, fyrr í vetur.

Ekkert kemur í veg fyrir að Phillipe verði skipaður aftur sem forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn en uppsögn allrar ríkisstjórnarinnar gefur til kynna að Macron hafi eitthvað stærra í huga heldur en örfáar ráðherrabreytingar, segir í frétt Financial Times .

Macron þakkaði Phillipe fyrir hans störf undanfarin þrjú ár en tjáði sig ekki um hvort hann myndi halda Phillipe sem forsætisráðherra fyrir síðustu tvö ár kjörtímabils forsetans.

„Ég mun þurfa að taka ákvarðanir til þess að fara niður hinn nýja veg. Það eru nýjar áherslur á sjálfstæði, endurbyggingu og sáttir[...] Á bak við það verður nýtt lið,“ er haft eftir Macron.

Samkvæmt BBC er Phillipe talinn vinsælli en Macron en ákvörðunin var tekin eftir að La Républic En Marche, flokkur Macron, fékk lítið fylgi í sveitarstjórnarkosningum um helgina.

Búist hefur verið við uppstokkuninni í nokkurn tíma en það þykir hefðbundin venja í frönskum stjórnmálum að Frakklandsforseti, á sinni fimm ára forsetatíð, skipti um forsætisráðherra.