Franska símafélagið, France Telecom, er að ganga frá kaupum á spænska farsímafyrirtækinu Amena. Kaupin gefa til kynna að ný alda samruna og yfirtöku sé í uppsiglingu á evrópskum símamarkaði.

Franska símafélagið mun kaupa 80% hlutabréfa í Amena og greiða 6,4 milljarða evra. Að sögn talsmanna fyrirtækisins munu kaupin hafa jákvæð áhrif á fjármagnsflæði innan ársins vegna samlegðaráhrifa í rekstri.

Kaupin á Amena er önnur stóra yfirtakan í þessari viku en á mánudag keypti írska fjarskiptafyrirtækið Eircom farsímafyrirtækið Meteor fyrir 420 milljónir evra.