Líkur standa til þess að efri deild franska þingsins muni á næstunni samþykkja umfangsmikil lög sem heimila stjórnvöldum að stunda víðtækar njósnir í Frakklandi.

Verði frumvarpið að lögum verður yfirvöldum heimilt að safna nær ótakmörkuðum rafrænum upplýsingum, upplýsingum um samskipti manna, auk hleranna á símum og textaskilaboðum. Þá yrðu netþjónustuveitendur skyldaðir til að veita upplýsingar um viðskiptavini sína.

„Síðustu leyniþjónustulög voru sett árið 1991, þegar hvorki farsímar né internet voru til staðar," er haft eftir Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands. Valls fór sjálfur fyrir frumvarpinu, í stað þess að eftirláta innanríkisráðherra Frakka að gera það. Lögin eru sett til höfuðs hryðjuverkasamtökum og forsætisráðherrann hefur fullyrt að þeim verði beitt á „hnitmiðaðan" hátt. Markmiðið væri að vernda franska ríkisborgara.

Lygar af hálfu stjórnvalda

Frumvarpið hefur sætt harðri gagnrýni meðal lögfræðinga, netþjónustuveitenda og mannréttindahópa. Gagnrýnendur segja það rangt að lögin verði hnitmiðuð og þeim verði beitt á hófstilltan hátt. „Þetta eru lygar af hálfu ríkisins," er haft eftir Pierre-Olivier Sur, sem er formaður lögfræðingafélags Parísar. „Frumvarpið var kynnt fyrir okkur sem leið til að verja Frakkland gegn hryðjuverkum og ef það væri raunin þá myndi ég styðja það," segir hann. „Lögin eru sett til að koma á einhvers konar „Patriot Act" sem snerta gjörðir hvers og eins," segir Pierre-Olivier Sur einnig.

New York Times greinir frá.