Fjármálaráðherrar aðildarríkja evrusvæðisins munu taka áætlanir frönsku ríkisstjórnarinnar um efnahagsumbætur til umfjöllunar í dag. Á fundinum, sem fer fram í Portúgal, verður það metið hvort tillögurnar stuðli að sjálfbærum vexti franska hagkerfisins eða leiði til fjárlagahalla sem stangast á við markmið peningamálastefnu evrópska seðlabankans.

Á fundinum mun Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands, reyna að sannfæra kollega sína um að þrátt fyrir að halli verði á fjárlögum franska ríkisins næstu fimm árin muni stjórnvöld samt sem áður sýna aðhald.
Sáttmálinn um stöðugleika og vöxt á evrusvæðinu (e. "Stability and Growth Pact") felur meðal annars í sér að fjarlagahalli aðildarríkjanna má ekki nema yfir þremur prósentum af þjóðarframleiðslu. Frönsk stjórnvöld hafa átt í erfiðleikum með halda sig innan þeirra marka og í sumar lýsti Nicolas Sarkozy, forseti landsins, því yfir að stefnt yrði að því að uppræta hallann árið 2012, en markmiðið hafði áður verið að koma böndum á hann í lok þessa áratugar. Er seinkunin liður í að knýja fram brýnar efnahagsumbætur í Frakklandi. Sarkozy og fylgismenn hans telja að stuðningur franskra kjósenda við umbæturnar, sem kunna að hafa sársaukafullar afleiðingar í fyrstu, muni þverra hafi þær ekki skjótvirk áhrif á hagvöxt í landinu.

Margir sérfræðingar telja að Sarkozy hafi nokkuð til síns máls og segja að umbæturnar felist í því að umbreyta franskri þjóðfélagsgerð. Skattalækkunaráform og umbætur á vinnumarkaði séu nauðsynlegar þar sem að hagvöxtur sé lítill í Frakklandi og atvinnuleysi mikið en hinsvegar sé nauðsynlegt að við þær séu pólitískur stuðningur og því gæti reynst hættulegt að draga of hratt úr umsvifum ríkisins.

Hagfræðingar benda þó á að slíkt feli í sér þá hættu að fjárlagahallinn verði of mikill og að Sarkozy eigi að vera einarðari í yfirlýsingum um að halda útgjöldum ríkisins innan skynsamlegra marka. Og það eru ekki eingöngu hagfræðingar sem sjá hættuna: Í síðasta mánuði varaði Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, Frakka við því að aukin ríkiútgjöld kynnu að auka vöxt til skemmri tíma en langtímaafleiðingarnar af því væru slæmar.

Það sem brennur á fjármálaráðherrum annarra aðildarríkja myntbandalagsins er að fá úr því skorið hvort að umbætur Sarkozy leiði til aukins hagvaxtar, en hann hefur verið aðeins 1,7% að meðaltali undanfarin fimm ár. Allar líkur eru á því að skili umbæturnar ekki árangri muni fjárlagahallinn að öllum líkindum fara yfir þrjú prósent að því gefnu að ríkisvaldið grípi ekki til aðhaldsaðgerða.

Horfurnar fyrir franska hagkerfið eru slæmar og spáir framkvæmdastjórnin aðeins 1,9% hagvexti á þessu ári.