Lögmaður verðbréfamiðlarans Jerome Kerviel, sem sagður er ábyrgur fyrir tæplega 500 milljarða króna tapi franska bankans Société Générale, hefur vísað á bug fullyrðingum þess efnis að skjólstæðingur sinn hefði reynt að flýja af vettvangi og sagði hann enn staddan í París, tilbúinn að sæta ákærum um gerð og notkun falsaðra skjala og atlögu að rafrænu kerfi. Í samtali við Daily Telegraph fyrr í dag viðurkenndu starfsmenn bankans að þeir vissu ekki hvar Kerviel héldi sig og Daniel Bouton, forstjóri Société Générale, viðurkenndi að ekki væri búið að reka hann formlega. „Ef hann leggur á flótta mun hann finnast, á því leikur enginn vafi,” sagði Bouton.

Um er að ræða sviksamleg viðskipti með vísitölur framvirka hlutabréfasamninga og eru svikin talin ein þau stærstu ef ekki stærstu í sögu bankareksturs frá upphafi vega. Hann er talinn hafa tapað fjórfalt til fimmfalt hærri fjárhæð en Íslandsvinurinn Nick Leeson gerði hjá Barings-bankanum.