Jerome Kerviel hefur verið látinn laus úr fangelsi eftir fimm vikna fangelsisvist, með ströngum skilyrðum þó. Jerome má ekki stunda viðskipti og má ekki fara út fyrir París án leyfis. Hann má enn fremur ekki hitta neinn sem tengist rannsókn máls hans og verður að mæta reglulega á lögreglustöð og láta vita af sér.

Franski bankinn Societe Generale segir Jerome hafa tapað fimm milljörðum evra af peningum bankans með áhættufjárfestingum sem hann lagði út í í leyfisleysi. Jerome hafði stundað fjárfestingarnar frá 2005 en þegar bankinn komst á snoðir um þær í janúar námu þær 49 milljörðum evra. Bankinn neyddist til að taka fjárfestingarnar til baka við óhagstæð markaðsskilyrði, sem olli tapi upp á 5 milljarða evra.

Jerome hefur verið ákærður fyrir að hafa brugðist trausti bankans, fyrir skjalafals og ólögmætan aðgang að tölvum bankans.