Franski bankinn Credit Agricole er sagður hafa samþykkt að greiða 800 milljónir dala,  um 100 milljarða króna, í stjórnvaldssektir í Bandaríkjunum fyrir að hafa farið framhjá viðskiptaþvingunum gagnvart Íran og fleiri löndum. BBC greinir frá.

Talið er að samkomulagið verði tilkynnt opinberlega síðar í vikunni, en bandarísk stjórnvöld hafa lengi rannsakað hina ýmsu evrópsku banka og ólöglegar millifærslur þeirra á Bandaríkjadölum.

Árið 2013 þurfti Royal Bank of Scotland að greiða bandarískum stjórnvöldum 100 milljónir dalafyrir að brjóta gegn viðskiptaþvingunum gagnvart Íran, Súdan, Búrmu og Kúbu.

Credit Agricole er sakaður um að hafa millifært milljarða Bandaríkjadala inn á reikninga í eigu aðila frá þessum sömu löndum á árunum 2003 til 2008. Borgar hann sektina til þess að koma í veg fyrir að vera dæmdur sekur um lögbrot. Í raun þarf bankinn því ekki að játa sig sekan, en greiðir þó sektina.

Því er haldið fram að einhverjir starfsmenn bankans, sem voru ábyrgir fyrir lögbrotunum, hafi þegar verið reknir. Credit Agricole sleppur þó vel í samanburði við franskan samkeppnisaðila sinn, BNP Paribas, sem þurfti að greiða 8,9 milljarða dala fyrr á árinu fyrir svipuð brot.