Franski fjárfestingarsjóðurinn Vauban Infrastructure Partners hefur keypt meirihlutaeign í íslenska fyrirtækinu Borealis Data Center sem áður hét Etix Everywhere Borealis. Björn Brynjúlfsson, forstjóri og einn af stofnendum fyrirtækisins, fer áfram með hlut í félaginu og engar breytingar verða gerðar á starfseminni, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Borealis Data Center rekur tvö gagnaver hér á landi; á Blönduósi og á Fitjum í Reykjanesbæ. Viðskiptavinir gagnaversins eru fyrst og fremst erlend fyrirtæki.

Ekki er greint frá kaupverði eða um seljendur í viðskiptunum. Eignir Borealis námu 55,4 milljónum dala, eða sem nemur 7,2 milljörðum króna miðað við núverandi gengi krónunnar, og eigið fé 6,2 milljónum dala, eða um 797 milljónir króna, í árslok 2020.

Á fyrsta ársfjórðungi 2020 keypti Vantage Datacenter, fyrirtæki um sameiginlegt verkefni Digital Colony og kanadíska innviðafjárfestisins PSP, hlut í móðurfélaginu Etix Financial Holding Europe Sarl. Digital Colony keypti óvirka fjarskiptainnviði Sýnar og Nova fyrr í ár.

Í tilkynningunni segir að þegar sé hafin stækkun á gagnaverinu á Blönduósi en vinna stendur yfir við að reisa nýja byggingu sem mun auka við afkastagetu Borealis. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir frekari stækkun gagnaversins á Blönduósi á komandi árum.

Vauban Infrastructure Partners er lýst sem langtíma fjárfestingasjóði með áherslu á fjárfestingar í innviðum. Félagið er með aðsetur í París og hjá þeim starfa um 50 sérfræðingar með áratuga reynslu í innviðafjárfestingum. Kaupin á Borealis gagnaverinu eru sögð til þess fallin að styrkja stöðu Vauban í stafrænum innviðum sem og á Norðurlöndunum þar sem félagið hefur nú þegar fjárfest í félögum í Noregi og Finnlandi.

Sam Zhang, einn af eigendum hjá Vauban Infrastructure Partners og nýr stjórnarformaður Borealis:

„Kaupin auka enn frekar viðveru Vauban á Norðurlöndunum og veitir okkur tækifæri á að bæta við sérþekkingu okkar á stafrænum innviðum. Við höfum mikla trú á ómissandi hlutverki gagnavera og nauðsyn þess að koma fram með sjálfbærar lausnir á meðan gagnanotkun heldur áfram að vaxa í heiminum.“

Björn Brynjúlfsson, forstjóri Borealis Data Center:

„Við hjá Borealis erum stolt af þessum nýja kafla hjá félaginu enda er langtíma fjárfestingarstefna Vauban og áhersla á sjálfbærni í takt við okkar eigin sýn. Kaup Vauban á félaginu gefa okkur byr undir báða vængi og sýnir sterkt hversu mikill árangur félagsins hefur verið á síðustu árum.“