Fyrr á árinu óskuðu Hagar eftir því við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að settur yrði tollkvóti, án allra gjalda, fyrir innflutning á lífrænum kjúklingi og buffala-, geita- og ærmjólkurostum til landsins, en vörurnar eru ekki framleiddar hér á landi. Var beiðninni synjað og bar fyrirtækið því niðurstöðuna undir dómstóla.

Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur var málinu vísað frá á þeim grundvelli að Hagar ættu ekki beina og sérstaka hagsmuni af málsókninni. Vísaði dómari til þess að tollkvótar væru settir með reglugerðum og því væri ekki um synjun á einstaklingsbundnum réttindum að ræða.

Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm í gær þar sem frávísun héraðsdóms var staðfest með vísan til forsendna hans. Hagar hefðu ekki sýnt fram á að félagið hefði lögvarinna hagsmuna að gæta af málsókninni.