Frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur á máli fjölda erlendra banka gegn Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu, íslenska ríkinu og Spron verður kærð til Hæstaréttar á morgun.

Þetta staðfestir lögmaður bankanna, Baldvin Björn Haraldsson, í samtali við Viðskiptablaðið.

Umræddir bankar voru lánardrottnar Spron og telja þeir sig hafa orðið fyrir tjóni með yfirtöku FME á Spron 21. mars sl. Þeir hefðu fremur viljað að Spron starfaði áfram og fóru þeir því m.a. fram á skaðabætur.

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði málum þeirra frá dómi í lok september á þeim forsendum meðal annars að kröfur þeirra væru vanreifaðar.

Baldvin Björn segir að kröfuhafarnir hefðu talið niðurstöðuna sérkennilega og þess vegna vildu þeir láta reyna á hana fyrir Hæstarétti.