Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu um að vísa svokölluðu Vafningsmáli frá dómi. Þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, og Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, kröfðust frávísunar málsins þar sem fyrrverandi lögreglumenn sem unnu fyrir skiptastjóra þrotabús Milestone unnu á sama tíma fyrir embætti sérstaks saksóknara.

Þeir Lárus og Guðmundur eru sakaðir um að hafa stefnt Glitni í stórhættu með umboðssvikum þegar þeir lánuðu félögunum Vafningi og Svartháfi 10 milljarða króna í febrúar árið 2009. Féð rann til Milestone, félages í eigu bræðranna .Karls og Steingríms Wernerssonar. Félagið Svartháfur var í eigu föður þeirra, apótekarans Werners Rasmussen.

Lárus og Guðmundur sátu báðir í áhættunefnd Glitnis á sínum tíma og skrifuðu undir lánveitinguna án ábyrgða og trygginga. Ef lánið hefði ekki verið veitt hefði bandaríski bankinn Morgan Stanley átt rétt til að taka bréf bankans yfir. Verjandi Lárusar sagði í aðalmeðferð málsins í ágústlok, að hefði lánið ekki verið veitt hefði Milestone líklega farið í þrot. Glitnir hefði farið sömu leið vegna áhættuskuldbindinga við Milestone.

Verjendur þeirra Lárusar og Guðmundar fóru fram á það þegar úrskurður var kveðinn upp fyrir stundu að nægur tími verði gefinn til að undirbúa vörn í málinu. Þeir ætla að mótmæla harðlega ef þeir fá því ekki framgengt þar sem málið hefur dregist á langinn. Þeir áforma að hittast á föstudag og funda um aðalmeðferðina.

Hér má sjá umfjöllun VB Sjónvarps um aðalmeðferð í Vafningsmálinu.