Frávísunarkröfu Mjólkursamsölunnar ehf. (MS) vegna skaðabótamáls sem að eigendur Mjólku höfðu höfðað gagnvart MS hefur verið hafnað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsvarsmönnum Mjólku.

Mjólkursamsalan hafði krafist frávísunar á þeim grundvelli að málið væri fyrnt. Þeirri kröfu hefur verið hafnað og mun málið nú sæta efnislegri meðferð fyrir héraðsdómi. Fyrr á þessu ári staðfesti Hæstiréttur 480 milljóna króna sekt á hendur MS vegna samkeppnislagabrota.

„Við eigendur og forsvarsmenn Mjólku I höfum lýst okkur reiðubúin til viðræðna og sátta til lúkningar á þessum málum þar sem MS myndi koma á móts við okkur og bæta okkur það tjón sem okkur var valdið með svo alvarlegum og afdrifaríkum hætti. Það er skammarleg framganga af hálfu MS að slá á útrétta sáttarhönd. Það er okkur því fagnaðarefni að frávísunarkröfum MS sé hafnað og málið fái efnislega meðferð fyrir dómi," segir í tilkynningunni.

Málið á sér langan aðdraganda og snýr að misnotkun MS á markaðsráðandi stöðu sinni með sölu á hrámjólk til Mjólku á hærra verði en til annarra keppinauta.