Frávísunarkröfu Þorvalds Gylfasonar í meiðyrðamáli Jóns Steinars Gunnlaugssonar á hendur honum var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Málið snýst um grein sem Þorvaldur skrifaði fyrir háskólann í Munchen í Þýskalandi og birtist í mars. Í greininni er fjallað um ákvörðun Hæstaréttar þegar kosning til stjórnlagaþings var ógilt. Í lauslegri þýðingu Jóns Steinars sjálfs sagði Þorvaldur í greininni að „einn af dómurum Hæstaréttar, staðfastur flokksmaður áður en hann var skipaður dómari og þá tekinn fram fyrir þrjá hæfari umsækjendur samkvæmt áliti nefndar sem mat umsækjendur, hafi lagt drög að einni af kærunum sem Hæstiréttur, undir forystu sama dómara, nýtti sem átyllu til að ógilda kosningarnar. Ekki hafa þó verið færðar sönnur á þetta.“

Eins og áður segir gerði Þorvaldur kröfu um að málinu yrði vísað frá en henni var hafnað. „Segja má að niðurstaða Héraðsdóms hafi ekki komið mér á óvart,“ segir Jón Steinar í samtali við vb.is.