Kröfu Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, um að máli saksóknara gegn honum yrði vísað frá var í morgun vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur. Baldur hefur verið ákærður fyrir að hafa selt hlutabréf fyrir 192 milljónir króna í Landsbankanum, 18. og 19. september 2008, er hann bjó yfir innherjaupplýsingum um stöðu íslensku bankanna.

Baldur krafðist þess að málinu yrði vísað frá, meðal annars á þeim grundvelli að FME hefði þegar verið búið að tilkynna honum um að rannsókn á viðskiptum hans hefði verið hætt án þess að nokkuð óeðlilegt hefði komið í ljós.

Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara, sagði að fjölmörg ný gögn hefðu komið fram í málinu og því hefði það verið endurupptekið.

Ekki liggur ljóst fyrir hvenær málið verður tekið til efnismeðferðar, en Baldur getur ekki kært niðurstöðuna til Hæstaréttar.