Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf. hefur ráðið Frazer Macfarlane forstöðumann á sviði evrópskra sambankalána.

Macfarlane starfar í London og mun sjá um að þróa og efla sambankalánastarfsemi Straums í Evrópu. Hann heyrir undir Andrew Bernhardt, framkvæmdastjóra Lánasviðs Straums, og starfar með Evu Ruiz sem gekk til liðs við bankann frá Kaupþingi í apríl síðastliðnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Straum en þar kemur fram að Macfarlane, sem starfaði áður hjá Glitni, hefur yfir 10 ára reynslu á þessu sviði.

„Við erum ákaflega ánægð með þennan liðsstyrk,“ segir Andrew Bernhardt í tilkynningunni.

„Ráðningin er til marks um þá áherslu sem við leggjum á að styrkja starfsemi okkar á sviði skuldsettrar fjármögnunar og ná góðri fótfestu á markaði sem við teljum að feli í sér mikil tækifæri.“

Macfarlane hóf störf hjá Glitni árið 2006 og gegndi þar yfirmannsstöðu á sviði skuldsettrar fjármögnunar. Hann starfaði áður í 16 ár hjá Bank of Scotland, síðast á lánasviði.