Freddie Mac, næststærsti íbúðalánasjóður Bandaríkjanna, skilaði tæplega 2,5 milljarða dollara tapi á síðasta ársfjórðungi og er það mesta tap í sögu félagsins.

Annar íbúðarlánasjóður, Fannie Mae skiliaði 3,6 milljarða króna tapi á sama tíma.

Áhrif á skuldatryggingaálag íslensku bankanna

Í hálffimm fréttum Kaupþings í gær er fjallað um tap sjóðanna.

„Uppgjörin höfðu neikvæð áhrif á markaði frekar en hitt þrátt fyrir að bæði Freddie Mac og Fannie Mae hafi byrjað daginn með u.þ.b. 4,5% hækkun. Bankar sem hafa orðið fyrir tapi vegna undirmálslána lækkuðu hins vegar nokkuð s.s. Goldman Sachs, Citigroup og Merril Lynch sem lækkuðu um 1,0-3,0% í upphafi viðskipta. Þá hækkaði skuldatryggingarálag fjármálastofnana almennt í gær eftir uppgjör Fannie Mae og voru íslensku bankarnir ekki undanskildir þrátt fyrir að afskriftir þeirra og áhætta gagnvart undirmálslánum sé afar takmörkuð,“ sagði í hálffimm fréttum Kaupþings.