Breskir fjölmiðlar fjalla um kauptilboð Eggerts Magnússonar í knattspyrnufélagið West Ham af miklum móð enda búast flestir við að Eggert leggi fram kauptilboð sitt sem stutt er af Björgólfi Guðmundssyni, formanni bankaráðs Landsbanka Íslands, á allra næstu dögum. Mike Lee talsmaður Eggerts Magnússonar sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að Eggert og fjárfestahópur í kringum hann ynnu nú hörðum höndum að undirbúningsvinnu og að frekari fregna yrði að vænta snemma í næstu viku. Óformlegt kauptilboð Eggerts nemur 75 milljónum punda, eða rúmlega níu milljörðum króna en auk þess hyggst hann taka yfir skuldir á bilinu 20-23 milljónir punda. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans að vinna að fjármögnun á hugsanlegum kaupum fjárfestahóps Eggerts á West Ham.

"Við eigum enn eftir að ljúka hluta viðræðna og undirbúningsvinnu en við erum að reyna að klára þetta eins hratt og mögulegt er. Það verða að öllum líkindum ennþá nokkrir dagar þar til endanlegt tilboð lítur dagsins ljós. Þegar undirbúningnum er lokið mun Eggert taka ákvörðun um endanlegt kauptilboð," segir Mike Lee.