Deutsche Bank tilkynnti í morgun að bankinn myndi að öllum líkindum koma til með að afskrifa allt að 3,9 milljarð Bandaríkjadala eða því sem nemur tæplega 300 milljörðum íslenskra króna vegna vandræða bankans á undirlánamörkuðum.

Uppgjör bankans fyrir fyrsta ársfjórðung verður kynnt í lok mánaðarins en líkt og hjá UBS bankanum sem einnig tilkynnti um miklar afskriftir í morgun eru það illseljanlegir fasteignatryggðir fjármálagjörningar sem koma til vegna vandræða á bandarískum fasteignamarkaði sem orsakar miklar afskriftir bankans.

Í febrúar tilkynnti bankinn að hagnaður fjórða ársfjórðungs 2007 hefði minnkað um 48%.

„Aðstæður á mörkuðum er krefjandi þessar vikurnar,“ segir í tilkynningu frá bankanum en fram kemur hjá Bloomberg fréttaveitunni að bankinn þurfi þó ekki að afskrifa slíkar upphæðir aftur á árinu sem vekur upp vonir um að erfiðleikar hans tengdir undirmálalánum í Bandaríkjunum sé lokið í bili.

Þrátt fyrir þessar fréttir hefur bankinn hækkað um tæplega 1% í Kauphöllinni í Frankfurt í dag en hefur engu að síður lækkað um 20% á árinu.