Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir að ríkið eigi ekki að borga eitt né neitt fyrir bankana. Komi til lánveitinga til þeirra muni þeir að sjálfögðu borga lánið með vöxtum. Björgvin talar í viðtalinu um stöðuna í fjármálaheiminum, Evrópusambandsmálum og ferð sína til Gíneu-Bissá.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir að eðli máls samkvæmt sé ekki hægt að greina nákvæmlega frá áætlunum ríkisstjórnarinnar um erlenda lántöku til að auka gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Upplýst var um þessi áform stjórnvalda fyrir viku og er unnið að þeim innan Seðlabankans. „Það er talað um að auka gjaldeyrisforðann verulega eins og þú sérð á umræðunum,“ segir viðskiptaráðherra sem vill þó ekki tilgreina upphæðina. Hún verði einfaldlega að koma í ljós. Það verði líka að koma í ljós hvenær frá lántökunni verði gengið.

„Það er ekki hægt að gefa út slíkt fyrirfram af því að þetta er allt mjög viðkvæmt. Það er líka mjög viðkvæmt ef ekki næst saman og svo framvegis þannig að menn fara mjög varlega í þennan feril.“ Hann bætir því við að ræður formanna stjórnarflokkanna um liðna helgi beri það með sér hve mikilvægt málið sé. Vísar hann þar til ræðu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, á aðalfundi Seðlabankans og ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar.

Þegar Björgvin er spurður hvort almenningur sé með þessari fyrirhuguðu lántöku farinn að borga brúsann fyrir útrás bankanna segir hann að því fari fjarri. Það eigi ekki að borga eitt né neitt fyrir bankana. Það skipti þó miklu máli að verja fjármálastöðugleikann og þar með efnahagskerfið allt. Því þurfi að blasa við að að baki bankanna standi öflugur bakhjarl, komi til þrenginga.

Í Viðskiptablaðinu á morgun er að finna ítarlegt viðtal við Björgvin G. Sigurðsson. Áskrifendur geta lesið blaðið frá kl. 21:00 í kvöld á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .