Olíuverð hefur náð nýjum hæðum í vikunni vegna ótta um að erfitt muni reynast að bæta upp þá framleiðslu sem tapast hefur í Mexíkóflóa vegna skemmda af völdum fellibylsins Ívans. Aukin eftirspurn er framundan yfir vetrarmánuðina og birgðastaða er fremur slök. Flestir virðast telja meiri líkur en minni á frekari hækkun olíuverðs. Meirihluti (73%) aðspurðra markaðsaðila í könnun á vegum Bloomberg spáir frekari hækkun á framvirku olíuverð í næstu viku.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að olíuverð hefur hækkað umtalsvert á árinu vegna aukinnar eftirspurnar og ótta við framboðsskell á olíumörkuðum, sérstaklega vegna ástandsins í Írak, Rússlandi og Nígeríu. Aukinn hagvöxtur í heiminum, sérstaklega í Kína, hefur stuðlað að aukinni eftirspurn eftir olíu. Ef marka má hagvaxtarspár og væntingar um óbreytt ástandi í Mið-Austurlöndum verður að teljast ólíklegt af þessum sökum að olíuverð lækki snarlega á næstunni.

Hlutabréfamarkaðir hafa brugðist illa við hækkun olíuverðs og síðustu mánuði hefur neikvæð fylgni verið á milli verðs á olíu- og hlutabréfamarkaði. Væntingar um frekari hækkun olíuverðs eru því slæm tíðindi fyrir hlutabréfaverð. Frá áramótum hefur S&P 500 hlutabréfavísitalan einkennst af stefnuleysi og lítið hækkað. Spár sérfræðinga um árslokagildi vísitölunnar eru dreifðar en að meðaltali er reiknað með gildinu 1160 í lok árs sem jafngildir 4,3% ávöxtun yfir árið. Vísitalan stóð í gildinu 1130,65 í lok viðskipta í gær segir í Morgunkorninu.