Lögreglan í Lúxemborg gerði í dag húsleitir vegna rannsóknar efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar, SFO, á Kaupþingi og vegna rannsóknar embættis sérstaks saksóknara á bankanum. Í fréttatilkynningu á vef SFO segir að húsleitirnar í dag sé áframhald sömu rannsókna og leiddu til húsleita þann 9. og 10. mars sl. í Reykjavík og London. Þá voru m.a. Tchenguiz-bræður handteknir.

Húsleitirnar í dag tengjast einnig rannsókn embættis sérstaks saksóknara á Kaupþingi. Húsleitir voru gerðar á þremur skrifstofum og tveimur heimilum. Um 70 tóku þátt í aðgerðum SFO í dag, þar á meðal aðilar frá embætti sérstaks saksónara hér á landi. Húsleitirnar eru gerðar að beiðni SFO og sérstaks saksóknara.

Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari sagði í samtali við Viðskiptablaðið að aðgerðirnar í dag standi enn yfir og séu nokkuð viðamiklar. Von er á fréttatilkynningu frá embættinu síðar í dag en Ólafur er staddur í Lúxemborg.