Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í vikunni að lækka stýrivexti um 0,25%. Meginvextir bankans – vextir á 7 daga bundnum innlánum – hafa því lækkað um 0,75% frá áramótum og standa nú í 3,75%.

Tónninn í nefndinni var svipaður og á síðasta fundi fyrir rúmum mánuði, en þá voru vextir lækkaðir um 0,5%. Nokkrir þættir eru sagðir benda til batnandi efnahagsaðstæðna frá því á síðasta fundi nefndarinnar.

Einkaneysla var kröftugri á fyrsta ársfjórðungi en spáð hafði verið, og vísbendingar eru um að samdráttur fjárfestingar hafi verið vægari. Að auki gætir aukinnar bjartsýni meðal stjórnenda og neytenda. Á móti stefnir nú í að samdráttur í ferðaþjónustu verði talsvert meiri en bankinn hafði spáð. Heilt yfir segir nefndin efnahagshorfur því svipaðar og áður.

Fallandi verðbólguvæntingar aukið aðhaldið

Verðbólga hefur að sama skapi verið í samræmi við spár enn sem komið er, en verðbólguvæntingar hins vegar lækkað töluvert. Raunstýrivextir höfðu því hækkað, og aðhald peningastefnunnar þar með aukist, frá síðustu vaxtaákvörðun.

Tveggja ára verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur lækkað um 0,3% og til lengri tíma nemur lækkunin um 0,2%. Enn meiri lækkun væntinga kom fram í könnun sem Seðlabankinn lét gera meðal fyrirtækja í apríl, en samkvæmt henni vænta þau nú 3% verðbólgu næsta árið í stað 4%. Því er ljóst að lækkunin í gærmorgun dugar í besta falli til að draga aðhald peningastefnunnar niður á það stig sem það var í við síðustu ákvörðun.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins telja í ljósi ofangreinds að vel hefði mátt rökstyðja meiri lækkun og greiningadeild Arion banka segir hækkun ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði í kjölfar tilkynningarinnar benda til þess að markaðurinn hafi búist við mildari tón frá nefndinni. Flestir greiningaraðilar búast því við frekari lækkun á næsta ákvörðunarfundi. Því til frekari stuðnings má benda á að raunstýrivextir hafa verið nær óbreyttir frá því síðasta haust, þrátt fyrir sífellt versnandi skammtímahorfur og gjaldþrot Wow air í lok mars.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .