Í dag var gefin út skýrslan Money Issuance – alternative monetary systems sem KPMG vann fyrir forsætisráðuneytið. Var skýrslan kynnt á ráðstefnu í morgun, þar sem Martin Wolf frá Financial Times og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, héldu erindi og sátu í pallborði ásamt Frosta Sigurjónssyni, þingmanni og formanni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og Ásgeiri Jónssyni, dósent og forseta Hagfræðideildar HÍ.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að þegar viðskiptabankar veita lán búi þeir til peninga með útgáfu innlána á innlánsreikningum viðskiptavina sinna. Þetta þenji út efnahagsreikninga bankanna sem seðlabankar hafi takmarkaða getu til að stemma stigu við. Upptaka þjóðpeningakerfis myndi færa peningaútgáfu frá viðskiptabönkum til ríkisins og seðlabankans.

Í skýrslunni ber KPMG saman grundvallaratriði þjóðpeningakerfisins og núverandi kerfis og kemst m.a. að því að þjóðpeningakerfi myndi fjarlægja heimild viðskiptabanka til þess að gefa út peninga og aðskilja greiðslumiðlun frá efnahagsreikningum þeirra. Þá myndi það gefa ríkinu möguleika á að setja nýja peninga í umferð í gegnum fjárlög og auka þannig ráðstöfunartekjur og eigið fé heimila og fyrirtækja án þess að hækka skuldsetningu ríkisins.

Þá segir í tilkynningunni að fjölbreytileiki og umfang áhrifa af upptöku nýs peningakerfis samkvæmt rannsóknum bendi til mikilvægis frekari rannsókna á þessu sviði. Ítarlegra rannsókna sé þörf varðandi ákjósanlegt skipulag peningakerfisins, umbreytingaáætlun, greiðslumiðlunarkerfið og peningastefnu undir nýju kerfi. Þá sé mikilvægt að frekari rannsóknir verði gerðar á áhrifum á opinber fjármál, fjármálamarkaði, fjármálastöðugleika og raunhagkerfið.