Fyrirhuguð er stækkun á ráðstefnuaðstöðu Grand Hótel við Sigtún. Að sögn Ólafs Torfasonar, eiganda hótelsins, hefur fengist leyfi til að reisa viðbyggingu við hótelið vestan megin og er gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir þar síðla árs. Þar verður reist viðbygging sem er 250 fermetrar að grunnfleti á tveimur hæðum. Þar með verður hægt að stækka ráðstefnusalinn Gullteig þannig að hann taki 700 manns en til þessa hafa mest komist þar fyrir um 450 manns. Einnig verður mögulegt að skipta salnum í þrjá hluta ef hentar.

Að sögn Ólafs blasti það alltaf við að stækka ráðstefnuaðstöðu í takt við stækkun hótelsins. "Við verðum þá líka vel í stakk búnir þegar kemur að stóra slagnum," sagði Ólafur en talsvert hefur verið að gera í ráðstefnuhaldi undanfarið. Ólafur sagði að rekstur hótelsins hefði gengið ágætlega síðan það stækkaði en tafir við opnun hefðu þó haft neikvæð áhrif. Bókunarstaða væri mjög góð. Í fyrra var tekin í norkun 13 hæða turnbygging við hótelið með 212 herbergjum.