Gengi krónunnar styrktist um 2,5% í fyrra og það sem af er þessu ári hefur gengið haldið áfram að styrkjast. Þegar rýnt er í gengisvísitölu Seðlabanka Íslands má sjá að frá lokadegi síðasta árs til 18. janúar sl. hefur gengi krónunnar styrkst um 1%. Því hefur gengi krónunnar styrkst um 3,5% frá byrjun síðasta árs.

Miðað við samtöl Viðskiptablaðsins við sérfræðinga á gjaldeyrismarkaði virðist margt benda til þess að gengi krónunnar muni halda áfram að styrkjast næstu misserin. Sérfræðingarnir nefndu nokkra þætti sem líklega ástæðu fyrir að gengi krónunnar hafi styrkst, og muni halda áfram að styrkjast, á þessu ári.

Útflutningsfyrirtækin séu meðvituð um að hagspár stóru viðskiptabankanna þriggja bendi til þess að gengi krónunnar gagnvart evru verði í námunda við 140 krónur í lok árs 2022. Þau hafi því mörg hver verið dugleg að verja framlegð sína með áhættuvörnum og það valdi keðjuverkun sem ýti undir frekari gengisstyrkingu.

Teikn séu á lofti um að bjartari tíð sé í vændum fyrir ferðaþjónustuna, en stóru bankarnir þrír reikna allir með að ferðamönnum muni fjölga verulega á þessu ári í samanburði við 2021. Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu komu tæplega 700 þúsund ferðamenn til Íslands á síðasta ári, en spár bankanna gera ráð fyrir að 1,5-1,6 milljónir ferðamanna muni heimsækja landið á þessu ári. Aukin tíðni utanlandsferða Íslendinga og eyðsla á erlendri grundu á árinu vegi þó að einhverju leyti upp á móti fjölgun ferðamanna. Endurspeglast þessar væntingar t.a.m. í hlutabréfaverði flugfélagsins Icelandair, en gengi hlutabréfa félagsins hefur hækkað um ríflega 9% það sem af er ári.

Bentu sérfræðingarnir að sama skapi á fréttir íslenskra fjölmiðla sem snúast um gjaldeyri sem streymt hefur inn í landið undanfarið, sem og fréttir um innflæði sem reikna megi með á þessu ári. Má þar sem dæmi nefna nýlega sölu Skeljungs á færeyska félaginu P/F Magn, 12 milljarða dala fjárfestingu Digital 9 Infrastructure, eiganda Verne Global, vegna framkvæmda við gagnaver Verne Global í Ásbrú í Keflavík og fyrirhugaða hækkun á flokkun íslenska hlutabréfamarkaðarins hjá vísitölufyrirtækinu FTSE. „Það er svo sem ekkert fast í hendi fyrr en þessi nýja flokkun er í höfn en ég sé engar efnislegar ástæður fyrir því að fallið verði frá þessum áformum. FTSE setur íslenska markaðinn á skoðunarlista af góðri ástæðu. Þessari flokkun myndi fylgja nokkurra tuga milljarða innflæði, því það er svo miklu meira fjármagn sem fylgir þessari „secondary emerging" vísitölu heldur en vaxtamarkaðsvísitölunni," sagði Magnús Harðarson, forstjóri kauphallar Nasdaq á Íslandi, í m.a. í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun mánaðar.

Telja sérfræðingarnir að fátt bendi til þess að krónan muni veikjast að einhverju ráði á næstunni. Fáir erlendir fjárfestar séu eftir hér á landi sem hafi stórar verðbréfastöður og því minni hætta á að stór sala erlendra fjárfesta hreyfi mikið við gengi krónunnar. Frekar megi reikna með að erlendir fjárfestar komi inn á íslenska markaðinn, í stað þess að stimpla sig út, m.a. vegna fyrrnefndrar hækkunar á flokkun íslenska hlutabréfamarkaðarins hjá FTSE. Auk þess sé líklegt að sala á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka muni laða að erlenda fjárfesta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .