Líklegra er að peningastefnunefnd muni hækka stýrivexti við næstu vaxtaákvörðun í september en að þeir verði lækkaðir. Þetta hefur Reuters eftir Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra, sem þó segir að nefndin gæti vel tekið þá afstöðu að bíða og sjá hvernig efnahagsmál þróast en mikil óvissa ríkir nú í efnahagsmálum um allan heim, þ.m.t. á Íslandi.

Már segir vexti stefna upp á við og þeirri stefnu verði aðeins breytt á fundi nefndarinnar og þá með hliðsjón af endurskoðaðri þjóðhagsspá sem kynnt verður í nóvember. Fram að því sé líklegt að hneigð vaxtanna verði upp á við. Að sögn Más hefur mat bankans á hagsveiflunni ekki breyst þrátt fyrir landsframleiðslutölur þær sem kynntar voru í síðustu viku.

Hann leggur áherslu á að Seðlabankinn verði að vinna sér trúverðugleika í baráttunni við verðbólguna og segist eiga von á að björninn sé ekki enn unnin, það muni koma nýtt verðbólgubakslag. Peningastefnan verði að taka mið af horfum til meðallangstíma en ekki skammtímasveiflum. „Þegar við höfum náð trúverðugleika höfum við meira andrými til þess að fínstilla stefnuna," sagði Már.