Í ljósi mikils atvinnuleysis og lítillar fjárfestingar er frekari vaxtalækkun enn aðkallandi að mati starfsfólks á hagfræðideild Landsbankans. Starfsfólk hagfræðideildarinnar telur hinsvegar að óvissa um þróun gengis krónunnar muni vega þyngst í vaxtaákvörðun peningastefnunefndarinnar að þessu sinni og að vaxtastig verði óbreytt. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var frá bankanum í dag.

Peningastefnunefnd Seðlabankans mun kynna næstu vaxtaákvörðun á miðvikudaginn í næstu viku.

Í tilkynningunni segir að í umfjöllun um framtíðarhorfur í vaxtamálum í síðustu yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands hinn 2. febrúar kvað við nýjan tón.  Í stað vísbendinga um að frekara svigrúm kynni að vera til vaxtalækkunar var lögð áhersla á að óvissa ríkti um vaxtabreytingar á næstunni.

Svo segir:

Eftir sem áður er þungamiðjan í peningastefnunni gengi krónunnar. Fyrirfram var búist við að endurskoðuð áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna lægi fyrir við næstu vaxtaákvörðun en þrátt fyrir langan aðdraganda hefur birtingu hennar ítrekað verið frestað. Í fyrstu var tilkynnt að áætlunin skyldi liggja fyrir í lok febrúar. Síðar var tilkynnt að áætlunin yrði kynnt föstudaginn 11. mars en þann dag var tilkynnt að málinu væri enn frestað og þá um tvær vikur.

Því er ljóst að peningastefnunefndin mun ekki geta tekið tillit til næstu skrefa við afnám haftanna við ákvörðun stýrivaxta þann 16. mars. Af því leiðir að óvissan um þróun gengisins til skamms tíma er áfram mikil. Í ljósi þess að krónan hefur veikst um 1,5% frá síðustu yfirlýsingu nefndarinnar verður að teljast afar ólíklegt að frekari skref í lækkun vaxta verði stigin að svo stöddu.

Nýjar tölur frá Hagstofunni um landsframleiðslu á árinu 2010 benda til þess að slakinn í hagkerfinu sé nokkuð meiri en búist var við að mati hagfræðideildar Landsbankans. Verðbólga sé undir markmiði Seðlabankans en hækkun heimsmarkaðasverðs á hrávörum auki þrýsting til hækkunar. Verðbólga sem af þessu stafi kallar þó alla jafna ekki á viðbrögð Seðlabankans.

Í ljósi alls þessa telur starfsfólk hagfræðideildar að vaxtastigið verði óbreytt.