Seðlabanki Indlands hefur nú þegar sett stýrivexti í 8%, og eru þeir hærri en þeir hafa verið í 6 ár. Auk þess hefur Seðlabanki Indlands minnkað lausafé í bankakerfinu þar í landi. Samkvæmt frétt Bloomberg er búist við enn frekari aðgerðum hans til að sporna gegn verðbólgu, en hún er nú 11% og hefur ekki verið hærri í 13 ár.

Ekki er vitað í smáatriðum hvaða aðgerða ríkisstjórn og Seðlabanki Indlands kunni að grípa til. Viðmælandi Bloomberg giskar þó á frekar hækkun stýrivaxta sem líklegt úrræði.

Búist er við 8-8,5% hagvexti á Indlandi í ár. Einn af yfirmönnum fjármálaráðuneytis landsins segir að 94% aukningar verðbólgu sé hækkandi olíuverði að kenna. Indland flytur inn um olíu til að mæta um 75% af orkuþörf landsins. Indland hækkaði bensínverð í smásölu eins og aðrar Asíuþjóðir í þessum mánuði og Bloomberg hefur eftir viðmælanda sínum að búast megi við frekari hækkunum, til að tryggja að fólk dragi raunverulega saman í neyslunni.